Fyrrverandi starfsmenn Gogoyoko segja að svo virðist sem stjórn og hluthafar Gogoyoko séu vísvitandi að fara með rangt mál til að sverta orðspor starfsmannanna fyrrverandi og gera þá tortryggilega.

Á miðvikudaginn sendi stjórn fyrirtækisins frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að framkvæmdastjóri og sex aðrir starfsmenn hafi óvænt hætt um síðustu mánaðamót og að hún hafi orðið þess áskynja að haft hafi verið samband við viðskiptavini fyrirtækisins og því ranglega haldið fram að það sé að hætta starfsemi. Að því er virðist í þeim tilgangi að ná viðskiptavinum þess yfir til nýs fyrirtækis. Í kjölfarið sagði Ríkisútvarpið frá því að stjórnin væri að íhuga það að kæra starfsmennina til lögreglu, m.a. vegna þess að eignir hafi horfið af skrifstofunni.

Í yfirlýsingu starfsmannnanna segir að hið rétta sé að öllum starfsmönnum Gogoyoko hafi verið sagt upp störfum undir lok janúar síðastliðins sökum fjárhagserfiðleika félagsins.

„Uppsagnarfresti starfsmannanna lauk í lok apríl og létu þeir þá af störfum - eðli máls samkvæmt. Viðlíka uppsagnir höfðu ítrekað átt sér stað áður og starfsmönnum þannig haldið í óvissu um framtíð sína hjá félaginu. Þá hafði stjórn gogoyoko ítrekað lofað starfsmönnum kaupréttarsamningum er snertu hluti í félaginu án þess að standa við slík fyrirheit.

Ásakanir um þjófnað, fjárdrátt eða önnur lögbrot eru mál sem eiga heima á borði lögreglu en ekki í fjölmiðlum. Þessar yfirlýsingar eru algjörlega tilhæfulausar og til þess eins fallnar að láta í veðri vaka að slæmt gengi félagsins eftir að starfsmenn létu af störfum séu á ábyrgð þeirra en ekki stjórnar félagsins. Það er von fyrrum starfsmanna gogoyoko að stjórn og hluthafar gogoyoko sjái sóma sinn í að láta af rangfærslum og innihaldslausum ásökunum í garð fyrrum starfsmanna. Fyrrum starfsmenn gogoyoko óska félaginu alls hins besta í framtíðinni,“ segir í yfirlýsingunni.