Stefán Atli Rúnarsson hefur gengið til liðs við Öryggismiðstöðina og tekið við starfi sérfræðings á markaðssviði.

Stefán Atli er einn af stofnendum markaðs- og framleiðslufyrirtækisins KALT sem sérhæfir sig í gerð myndefnis fyrir samfélagsmiðla og framleiðslu á myndefni í samstarfi við áhrifavalda. Hann er einnig partur af afþreyingarmiðlinum ICE COLD sem sendir m.a. frá sér efni á borð við beinar útsendingar á tölvuleiknum Fortnite.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að ganga til liðs við Öryggismiðstöðina sem hefur lagt mikla áherslu á stafræna markaðssetningu á undanförnum árum. Á því sviði nýtast mínir hæfileikar og reynsla einkar vel. Það eru spennandi tímar framundan hjá Öryggismiðstöðinni og ég er mjög ánægður með að vera genginn til liðs við þetta flotta fyrirtæki. Það er skemmtileg áskorun að takast á við ný verkefni á stærra sviði en áður," segir Stefán Atli.