Stefán Broddi Guðjónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Stefán hefur starfað hjá bankanum frá ársbyrjun 2012 sem sérfræðingur í greiningardeild þar sem hann hefur haft umsjón með fyrirtækjagreiningu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

Stefán hefur víðtæka reynslu úr fjármálageiranum en á árunum 2008 - 2011 starfaði hann hjá Straumi fjárfestingarbanka í markaðsviðskiptum og sem forstöðumaður eigin viðskipta á Íslandi. Á árunum 2006 - 2008 var Stefán fjárfestingastjóri hjá Exista og frá árinu 2001 til ársins 2006 starfaði hann í Íslandsbanka sem sérfræðingur í greiningu og markaðsviðskiptum. Á árunum 1998 – 2001 var Stefán blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Stefán Broddi er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Eiginkona hans er Þuríður Anna Guðnadóttir, hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur, og saman eiga þau þrjá syni.