Breytingar verða á stjórn Sýnar í byrjun sumars því þann 1. júní mun Stefán Sigurðsson forstjóri láta af störfum. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu óskaði Stefán eftir því að láta af störfum. Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að ráðningarferli nýs forstjóra sé hafið og mun Sefán verða stjórninni innan handar þar til nýr forstjóri tekur við.

„Stjórn félagsins hefur falið Heiðari Guðjónssyni stjórnarformanni að annast í auknum mæli skipulag félagsins og gæta þess að rekstur þess sé í réttu og góðu horfi fram að ráðningu nýs forstjóra," segir í tilkynningu Sýnar.

Stefán var ráðinn forstjóri Sýnar í maí árið 2014. Þá nefndist fyrirtækið Vodafone og tók Stefán við forstjórastöðunni af Ómari Svavarssyni, sem í dag er forstjóri Securitas. Þegar Stefán lætur af störfum þann 1. júní mun hann hafa starfað hjá félaginu í fimm ár. Hann kom til Sýnar frá Íslandsbanka, þar sem hann hafði gegnt starfi fram­kvæmda­stjóra eign­a­stýr­ing­ar.