Stefán Hrafn Hagalín tekur um mánaðamótin við sem nýr deildarstjóri samskiptadeildar Landspítala af Guðnýju Helgu Herbertsdóttur.

Almannatengsl og vinna fyrir fjölmiðla

Stefán Hrafn er nú verkefnastjóri hjá Auðkenni en hefur undanfarin þrjú ár verið deildarstjóri markaðsmála og mannauðs hjá Odda. Þar áður stýrði hann markaðsmálum og almannatengslum í upplýsingatækni um fimmtán ára skeið, hjá Advania, Skýrr, Opnum kerfum og Teymi, Oracle á Íslandi.

Stefán Hrafn starfaði þar áður við fjölmiðla í liðlega áratug, meðal annars sem ritstjóri Helgarpóstsins og Tölvuheims, fréttastjóri Alþýðublaðsins og þáttastjórnandi hjá Bylgjunni og Stöð 2.

Hann er giftur Valgerði Gunnarsdóttur, grafískum hönnuði hjá Pipar/TBWA. Þau eiga fimm börn á aldrinum 17-27 ára.

Almannatengsl og viðburðarumsjón

„Hlutverk samskiptadeildar Landspítala er að móta og innleiða stefnu um innri og ytri samskipti og skipuleggja virka upplýsingamiðlun um stefnu og starfsemi spítalans,“ segir í fréttatilkynningu frá spítalanum.

„Í verkahring deildarinnar eru meðal annars framleiðsla kynningarefnis, margvísleg útgáfa, samfélagsmiðlar og vefmál. Samskiptadeild sér einnig um almannatengsl og samskipti við fjölmiðla, ásamt því að hafa umsjón með stærri viðburðum.“