Stefanía G. Halldórsdóttir hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra CCP á Íslandi. Stefanía hóf störf fyrir CCP árið 2010 sem efnisstjóri fyrir EVE Online og sá m.a. um samþættingu á þróunarstarfi fyrirtækisins í Atlanta og Reykjavík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Stefanía hefur undanfarin tvö leitt þróunarstarf CCP í Kína sem yfirmaður þróunarsviðs skrifstofu fyrirtækisins í Shanghai. Þar hafði hún meðal annars umsjón með þróun tölvuleiksins Gunjack, sem er í dag mest seldi sýndarveruleikaleikur heims, og fjölspilunarleiksins EVE Online fyrir Kínamarkað.

Staða framkvæmdastjóra CCP á Íslandi er ný hjá fyrirtækinu og er liður í stefnu þess að styrkja enn frekar starfsemi þess hérlendis. Fyrir er CCP með framkvæmdastjóra fyrir skrifstofur sínar í Shanhgai, Atlanta og Newcastle. Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, flytur frá Reykjavík til London í sumar og mun stýra uppbyggingu á nýrri skrifstofu CCP þar í borg.