Gert er ráð fyrir því að skuldir ríkissjóðs verði komnar undir 60% af vergri landsframleiðslu í árslok 2018, að því er kemur fram í stefnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins í lánamálum ríkisins fyrir næstu fjögur ár. Þá er stefnt að því til lengri tíma að hlutfallið fari ekki yfir 45%.

Hlutfallið er nú um 102% samkvæmt tölum hagstofunnar en var hæst 112,9% í árslok 2011. Náist markmið ráðuneytisins um að skuldir ríkissjóðs fari undir 60% af landsframleiðslu yrði það í fyrsta sinn frá árinu 2007 sem sú staða kæmi upp. Í árslok 2007 var skuldahlutfallið 41,6%, en ári síðar var það orðið 85,4%.

Þá er markmið um meðallánstíma lánasafnsins hækkað í 5 ár að lágmarki og hlutfall lána ríkissjóðs sem gjaldfalla á hverju almanaksári skulu að hámarki nema 15% af landsframleiðslu. Viðmiðunarreglur fyrir samsetningu lánasafns ríkissjóðs eru þrengdar þannig að þær verða 70-90% fyrir óverðtryggð lán og 15-30% fyrir verðtryggð lán.