Nicolas Maduro, forseti Venesúela, segir landið stefna að útgáfu rafmyntar með olíufæti. Til standi að gefa út 100 milljón „petróa“. Tilgangur útgáfunnar er meðal annars að komast í kringum viðskiptaþvinganir á landið, sem hafa verulega skert aðgengi þess að alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Í frétt Reuters segir að forsetinn hafi greint frá því á föstudaginn að rafmyntin yrði tengd olíukörfu landsins, sem nú stendur í um 59 bandaríkjadölum. Það þýðir að útgáfan yrði um 5,9 milljarða dala virði. Stjórnarandstæðingar í landinu segja útgáfuna ekki líklega til árangurs og gera lítið til að tryggja íbúm landsins aðgang að nauðþurftum, sem eru af afar skornum skammti í landinu.