*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 1. apríl 2017 16:02

Stefna að yfirtöku í Evrópu

Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood International, segir fyrirtækið vinna að kaupum á fyrirtæki í Evrópu á árinu.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Á þessu ári stefnir Iceland Seafood International að því að bæta við sig starfsemi í Evrópu með mögulegri yfirtöku, en Helgi Anton Eiríksson, forstjóri fyrirtækisins, segir enn ekki tímabært að gefa upp frekari upplýsingar um það.

Þó að heildartekjur fyrirtækisins hafi minnkað milli ára úr 258 milljónum evra árið 2015 í 246 milljónir evra á síðasta rekstrarári, þá jókst hagnaður fyrirtækisins fyrir skatt um 2,2 milljónir evra frá fyrra ári og náði hann um 3,3 milljónum evra af reglulegri starfsemi á árinu 2016.

„Framlegðin okkar, það er sala að frádregnum heildarsölukostnaði og kostnaðarverði seldra vara, jókst milli ára um 17%, eða um 2,8 milljónir evra frá árinu 2015 og stendur hún nú í 19 milljónum evra,“ segir Helgi ásamt því að minnast á fyrrnefnda verulega hagnaðaraukningu félagsins milli ára.

„Umhverfi félagsins var ekki mjög auðvelt á síðasta ári, við upplifðum miklar sveiflur á mörkuðum í kringum Brexit en það sannreyndi þó fyrir okkur á hve sterkum grunni félagið stendur.

Heildarskuldirnar okkar eru svo að minnka um fjórðung, eða um 12 milljónir evra sem styður við hagnað félagsins með því að draga úr vaxtagreiðslum. Grundvöllur þess var betri stýring á veltufjármunum okkar.

Við erum í dag á mjög góðum stað eftir að hafa tekið verulega á og erum við nú komin með mjög sterkan grunn til þess að ná enn frekari vexti.“

Einungis íslenskur fiskur tengdur landinu

Helgi segir að þótt félagið kaupi vörur frá 20 löndum út um allan heim, þá vilji hann vera trúr upprunanum hér á landi.

„Stærsti hlutinn af vörum okkar kemur frá Íslandi og höfum við engar áætlanir um að breyta því, því að Ísland er ein besta aðgreiningin sem hægt er að hafa á þessum markaði,“ segir Helgi en félagið hefur um 35 af sínum 280 starfsmönnum hér á landi.

„Við vinnum með tugum framleiðenda á Íslandi, hvort sem þeir eru að framleiða ferska vöru, frosnar, saltaðar eða þurrkaðar og við erum að markaðssetja vörur þeirra til 45 landa víðs vegar um heiminn. Við erum með 1.900 viðskiptavini um allan heim enda er mjög mikilvægt að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni.

Á sama tíma myndum við ekki selja vöru frá öðrum löndum undir merki sem tengist Íslandi, við erum með mjög skýra vörumerkjastefnu í því, eins og til dæmis á Spáni myndum við aldrei selja annað en íslenskan fisk undir gamla góða SÍF merkinu, Bacalao Islandia, því fyrirtæki eru mjög fljót að missa trúverðugleika ef slíkt væri gert.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í  áskrift hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim