*

föstudagur, 19. október 2018
Innlent 30. nóvember 2017 13:49

Stefna ríkisfjármála vekur ugg

Forstöðumaður efnahagssviðs SA hvetur ríkisstjórnina til að minnka ekki fjárlagaafganginn heldur muna lærdóminn af hruninu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins segir að nú þegar ný ríkisstjórn taki við það ekki staða efnahagskerfisins heldur ríkisfjármála og stefna þeirra næstu ára sem veki mestan ugg.

Rifjar hún upp mikil útgjaldafyrirheit stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar í pistli í Viðskiptablaðinu undir fyrirsögninni Kæra ríkisstjórn, sem hún segir að hafa ekki verið í neinu samhengi við stöðu opinberra fjármála.

„Kæra ríkisstjórn, ábyrgð í uppsveiflu krefst hugrekkis og þors,“ segir Ásdís og biður ríkisstjórnina um að festa ekki háa skatta í sessi og bendir á að skattheimta hér á landi sé sein sú mesta sem fyrirfinnast innan OECD ríkjanna 

„Það er eðli máls samkvæmt auðveldara að uppfylla digurbarkaleg loforð þegar vel gengur en hafið í huga að uppsveiflur taka enda. Ekki skilja íslenskt samfélag eftir úti á berangri að uppsveiflu lokinni.“

Rifjar upp lífsbjörg þjóðarinnar í hruninu

Loks setur hún fram tékklista fyrir komandi ríkisstjórn þar sem hún biður hana um að eyða ekki afganginum sem boðaður var á ríkisfjármálum heldur að hún skili meiri afgangi og búa þannig í haginn fyrir verri tíma.

Eins og Viðskiptablaðið hefur þegar greint frá stefnir ríkisstjórnin þó að því að minnka afganginn af síðasta fjárlagafrumvarpi um 10 milljarða, en hann átti að verða um 44 milljarðar króna á næsta ári.

„Ekki stunda þensluhvetjandi fjármálastefnu. Á góðæristímum þurfa ríkisfjármálin að vera aðhaldssöm,“ bendir Ásdís meðal annars á og biður ríkisstjórnina frekar um að forgangsraða innan núverandi útgjaldaramma. „Greiðið áfram niður skuldir. Hafið í huga að ein lífsbjörg okkar Íslendinga árið 2008 var hversu lítið skuldsettur ríkissjóður var þegar efnahagsáfallið dundi yfir.“