„Við höfum fundað með þremur fjárfestum vegna uppbyggingar veitingastaða Serrano utan Svíþjóðar,“ segir Emil Helgi Lárusson, annar tveggja stofnenda veitingakeðjunnar Serranó. Hann bendir á að þeim Einari Erni Einarssyni, sem stofnaði Serrano með honum á sínum tíma, hafi staðið ýmislegt til boða í gegnum tíðina. Með fjárfesta á bak við sig verði þeir tilbúnir til að stökkva á tækifærin.

Eins og fram kom fram fyrr í dag hefur sænski fjárfestingarsjóðurinn Gavia Food Holding keypt 15% hlut í Serrano í Svíþjóð fyrir 6,5 milljónir sænskra króna, jafnvirði 124 milljóna íslenskra króna. Stefnt er á að opna þrjá veitingastaði í miðborg Stokkhólms í kjölfarið og verða þeir þar þá átta talsins. Serrano rekur sex veitingastaði hér á landi.

Fjárfestar á hliðarlínunni

Emils segir í samtali við vb.is að sem fyrr hafi þeir Einar Örn unnið markvisst að uppbyggingu Serranó í Svíþjóð.

„Við ætluðum okkur alltaf að gera þetta í skrefum, koma okkur inn á markaðinn, byggja nokkra staði hratt og ná jafnvægi í rekstrinum og síðan leita eftir fjárfesti til að sprengja þetta út með okkur og opna marga veitingastaði á stuttum tíma.

Þrjátíu fjárfestum voru fyrir nokkru send drög að uppbyggingu fleiri veitingastaða. Helmingur þeirra óskaði eftir frekari upplýsingum og vildu tíu funda með þeim Emil og Einari. Viðræðurnar skiluðu meðal annars því að Gavia Food Holding keypti hlut í Serrano. En fleiri fjárfestar eru á hliðarlínunni sem vilja taka þátt í frekara landnámi Serrano á Norðurlöndunum.

„Það eru tækifæri víða. En við viljum vera tilbúnir. Ef boðið kemur þá viljum við vera klárir,“ segir hann.