Einar Örn Einarsson, stofnandi skyndibitakeðjunnar Zócalo í Svíþjóð, segir stefnt á að staðirnir verði 40 staði á næstu fimm árum. „Aðallega stefnum við að vexti með sölu sérleyfa. Einnig er stefnan að selja hluta af okkar stöðum til sérleyfishafa en í dag eru þrír af okkar stöðum í eigu sérleyfishafa,“ segir Emil.

Árið 2015 rak Zócalo sex veitingastaði í Svíþjóð en þeim hefur fjölgað mikið síðustu ár og reka þeir nú veitingastaði í Stokkhólmi, Karlstad, Gautaborg og Malmö. „Veltan var um 30 milljónir sænskra króna árið 2015, um 40 milljónir í fyrra og erum við að miða við að hún verði í kringum svona 70 milljónir í ár á öllum stöðunum,“ segir Einar Örn en áætluð velta í ár samsvarar um 940 milljónum íslenskra króna.

Einar Örn fór út til Svíþjóðar í janúar árið 2009 til að opna veitingastaði undir merkjum Serrano, sem Einar Örn stofnaði ásamt Emil Helga Lárussyni.  Þeir ráku sig fljótlega á að bæði nafnið og markaðsaðstæður í Svíþjóð kölluðu á breytingar á hugmyndinni sem gengið hafði vel á Íslandi.

Svíar tímabundnari en Íslendingar

„Nafnið Serrano er í Evrópu mikið tengt spænskum mat og héldu allir fyrst að þetta væru tapas staðir ,“ segir Einar Örn sem í dag er aðaleigandi mexíkósku skyndibitakeðjunnar í Svíþjóð eftir að hafa selt sig út úr Serrano á Íslandi árið 2015. „Við breyttum um nafn árið 2013 og hafa miklar breytingar verið gerðar á útliti staðanna síðan ásamt því að innihald matarins hefur verið í mikilli þróun síðustu ár.“

Einar Örn segir að hugsa þurfti framleiðslu matarins töluvert öðruvísi í Svíþjóð heldur en gert er hérna heima. „Breytingarnar miða að því að geta sinnt mun stærri sölutoppum. Á Íslandi er hádegishléið mun afslappaðra þar sem allir eru á bílum meðan í Svíþjóð er það miklu styttra, klukkan hálf tólf fyllist staðurinn því allir fara í klukkutíma mat á sama tíma, svo það er mikið að gera í örstuttan tíma,“ segir Einar Örn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Árangurslaust fjárnám, að hluta, var gert í íslensku tæknifélagi.
  • Samtök atvinnulífsins leggja til að það verði tekið upp nýtt vinnumarkaðslíkan.
  • Vantraust ríkir á milli stjórnmálaflokkanna og snúið gæti verið að mynda ríkisstjórn að lok kosningum.
  • Umfjöllun um afkomu tryggingafélaganna þriggja sem virðast vera að ná betri tökum á vátryggingarrekstri.
  • Netverslunin aha.is vakti athygli fyrir skömmu vegna samstarfs fyrirtækisins við Nettó.
  • Dominic Barton, forstjóri McKinsey, er tekinn tali. Meðal annars er rætt við hann um yfirvofandi samfélagsbreytingar.
  • Farið er í saumana á framboði fasteignalána.
  • Ítarlegt viðtal við Georg Lúðvíksson, forstjóra Meniga.
  • HEY Digital er nýtt fyrirtæki sem aðstoðar við stafræna markaðsetingu á netinu.
  • Sigurður B. Stefánsson, sem tók nýverið sæti í stjórn Íslandssjóða, er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um uppreist æru.
  • Óðinn skrifar um skatta, ofbeldi, og þjófnað.