Met var slegið á fyrstu átta mánuðum ársins 567 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Á sama tíma í fyrra voru þeir 472 þúsund. Þetta var 20% aukning á milli ára. Þá var sömuleiðis met slegið í ágúst í brottferðum erlendra gesta frá landinu þegar brottferðirnar voru 132 þúsund talsins. Þetta var 14% aukning á milli ára.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í dag að erlendir ferðamenn hér á landi séu nú orðnir fleiri en nokkru sinni. Í fyrra námu brottfarir erlendra ferðamanna um flugstöðina 647 þúsund og höfðu þeir þá aldrei verið fleiri.

„Miðað við 15% vöxt í hverjum mánuði út árið, sem er hóflegur vöxtur miðað við þá þróun sem verið hefur framan af árinu, munu brottfarir [...] slaga upp í 770 þúsund á árinu í heild,“ að sögn Greiningar Íslandsbanka.