Stefnir, eignarstýringarfélag í eigu Arion banka, er komið yfir 5% eignarhlutdeildarmarkið  í VÍS að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Sjóðir í stýringu Stefnis bættu við sig 7,5 milljónum hluta en miðað við markaðsgengi VÍS má áætla að hlutirnir hafi verið keyptir á 105,8 milljónir króna.

Sjóðir í eigu stefnis eiga því 5,13% í félaginu og virði hlutarins því rétt tæplega 1,6 milljarðar króna. Heildarvirði VÍS er miðað við lokagengi félagsins í dag rúmlega 31 milljarður.

Aðrir stórir hluthafar í VÍS eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lansdowne partners, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Arion banki og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.