Hugmyndin er að gera 20 þúsund fermetra rými inni í fjallinu og koma þar fyrir eldiskerum sem eiga að anna fimm til sjö þúsund tonnum af laxaseiðum árlega. Þegar ungviðið er orðið allt að eitt kíló á þyngd er svo meiningin að setja þau út í sjó og halda þar eldinu áfram í kvíum.

Fjallað er um þetta á norska fréttavefnum E24.no, en fyrst greindi héraðsfréttablaðið Hardanger Folkblad frá.

Rætt er við Henning Grønhaug, talsmann fyrirtækisins, sem segir að vonlaust hefði verið að reyna að fá leyfi til seiðastöðvar utandyra í Harðangursfirði.

„Við erum í Harðangursfirði og álagið á fjörðinn hvað varðar fiskeldi hefur lengi verið umtalað,“ segir hann. Fyrirtækið hefur reyndar ekki langa reynslu af fiskeldi en hefur reist orkuver inni í fjöllum áður og ætlar að nýta sér það.

„Hvað varðar staðsetninguna þá er eignin okkar nú þegar, og orkuverið með aðgang að firðinum. Allt var til reiðu til að reisa eldisstöð inni í fjallinu.“

Hann segir það eiga eftir að taka tímann sinn að fá tilskilin leyfi og fjármagn og þeir ætli að flýta sér hægt í þeim efnum. Byggingarkostnaðurinn verði eitthvað yfir 500 milljónum norskra króna, en það samsvarar um sjö milljörðum íslenskra króna.

[email protected]