Landsnet, Rarik, HS Veitur og Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa sameinast um að stuðla að aukinni notkun á endurnýjanlegri orku í fiskmjölsiðnaði á Íslandi. Með viljayfirlýsingu sem þessir aðilar skrifuðu undir sl. föstudag er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því að stuðla að aukinni raforkunotkun við vinnslu og draga þannig úr notkun á orkugjöfum sem gefa frá sér hærra kolefnisfótspor og um leið stuðla að því að markmið Parísarsamkomulagsins og aðgerðaráætlunar ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum náist.

Heimasíða Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir frá.

Á undanförnum áratugum hafa íslenskir fiskmjölsframleiðendur notast bæði við olíu og rafmagn við framleiðslu sína. Fiskmjölsframleiðendur hafa undanfarin ár keypt skerðanlegan flutning og dreifingu á rafmagni. Vegna takmarkaðs öryggis á flutningi og dreifingu í raforkukerfinu, ótryggs framboðs á raforku og sveiflukenndrar eftirspurnar hjá fiskmjölsframleiðendum hefur olían verið og verður áfram nauðsynlegur varaaflgjafi í vinnslunni og kemur í stað rafmagns þegar á þarf að halda.

Aukin notkun og vöruframboð

Flutnings- og dreifiaðilar, sem eru aðilar að þessari yfirlýsingu, lýsa því yfir að þeir muni á næstu árum stuðla eins og hægt er að því að flutnings- og dreifikerfið í heild nýtist sem best þannig að fjárfestingar allra aðila séu nýttar á sem hagkvæmastan hátt. Á sama tíma mun FÍF stuðla að því að félagsmenn horfi til þess að gera framleiðslu sína enn umhverfisvænni með því að nota endurnýjanlega orkugjafa í stað annarra mengandi orkugjafa. FÍF hvetur félagsmenn sína til að nota skerðanlegan flutning og dreifingu eins mikið og framboð á slíkum flutningi og dreifingu leyfir. Á árinu 2017 kom 74% af orkuþörf fiskmjölsverksmiðja frá endurnýjanlegri raforku og talið er raunhæft að það hlutfall geti á næstu árum farið allt upp í 90%. Til þess að ná fullri rafvæðingu þarf hins vegar að koma til veruleg fjárfesting í flutningskerfi raforku í landinu.