Að sögn Brynjólfs Bjarnasonar, forstjóra Símans, miðast allur undirbúningur fyrirtækisins við það að félagið verði skráð í Kauphöll Íslands fyrir lok árs eins og kveðið var á um í samkomulagi eignarhaldsfélagsins Skipti við einkavæðingarnefnd. Vangaveltur um annað sagði Brynjólfur að væru ótímabærar en aðspurður um það ef markaðsaðstæður yrðu ekki fýsilegar sagði Brynjólfur að, ?skynsemin myndi ráða?.

Brynjólfur sagði að vitaskuld myndu markaðsaðstæður hafa áhrif á skráningu félagsins þegar þar að kæmi en slíkt skipti ekki máli þessa stundina þar sem unnið væri að undirbúningi skráningar af fullum krafti.

?Það er verið að vinna að allri pappírsvinnu og vinnslu skráningarlýsingar. Ætlun okkar er að skrá félagið fyrir áramót eins og samkomulag er við einkavæðingarnefnd.?

Í Fréttablaðinu í dag var því velt upp að skráningu kynni að vera frestað en Brynjólfur sagði að þær vangaveltur væru ótímabærar með því fororði að aðstæður á markaði skiptu alltaf máli við skráningu. Hann sagðist ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að óska eftir frestun skráningar ef markaðsaðstæður væru þannig.

Samningur Skipti við einkavæðingarnefnd fól í sér að 30% af hlutafé félagsins yrði að fara á markað fyrir árslok 2007. Síminn var einkavæddur sumarið 2005 og var kaupverðið þá 66,7 milljarðar króna. Exista á 45% í Skipti og Kaupþing 30%.