Undirbúningur að nauðasamningum Glitnis er í fullri vinnslu. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar bankans, segir að tímasetningar í þeim efnum séu ekki gefnar upp en litið sé til ársins. Við samþykkt nauðasamninga taka kröfuhafar bankans við stjórn þrotabúsins án milliliða og slitastjórn verður lögð niður.

Slitastjórnin tilkynnti í janúar síðastliðnum að stefnt sé að því að greiða forgangskröfuhöfum fyrir lok febrúarmánaðar, komi ekki upp mótmæli við þeirri ákvörðun. Forgangskröfur í búið nema alls um 106 milljörðum króna. Steinunn segir að komið hafi upp ágreiningur en hún býst við að gengið verði frá greiðslum fljótlega eftir mánaðamót. Um er að ræða fullnaðargreiðslur forgangskrafna. Um helmingur upphæðarinnar verður lagður inn á geymslureikning vegna ágreinings.