Þrotabú Kaupþings hefur ráðið sænska fjárfestingarbankann Carnegie til að sjá um skráningu Arion banka á markað, en einnig munu alþjóðlegu bankarnir Citibank, Morgan Stanley og Deutsche Bank koma að skráningunni og miðlun hlutabréfa bankans. Fyrst var greint frá þessu í frétt Reuters í vikunni.

Þetta rímar vel við fréttir frá síðasta hausti af því að áform væru uppi um að skrá Arion á markað í sænsku kauphöllinni, sem og í þeirri íslensku. Þá var reyndar gert ráð fyrir því að fyrir skráningu bréfanna yrði hlutur í bankanum seldur til hóps lífeyrissjóða og hluthafa Kaupþings í lokuðu útboði og átti það útboð jafnvel að fara fram á síðasta fjórðungi ársins 2016. Af því varð hins vegar ekki – að svo komnu að minnsta kosti.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins úr röðum lífeyrissjóðanna segja að ekki hafi náðst niðurstaða í viðræður við Kaupþing um kaup á hlut í Arion banka og má skilja á þeim að deilt hafi verið um verð. En að öðru leyti voru viðmælendur fámálir. Síðustu fundir milli fulltrúa lífeyrissjóðanna og Kaupþings fóru fram í desember síðastliðnum, en eins og áður segir þá náðu aðilar ekki saman.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .