*

mánudagur, 20. ágúst 2018
Innlent 12. október 2017 12:56

Stefnt á algjöra fríverslun við Breta

Embættismenn segja ekkert leyndarmál að íslensk stjórnvöld vilji algera fríverslun eftir útgöngu Breta úr ESB.

Ritstjórn
Stefán Haukur Jóhannesson tekur við sem sendiherra í Bretlandi um miðjan Nóvember

Stefán Haukur Jóhannesson, sem er formaður stýrihóps utanríkisráðuneytisins um framtíðarsamskipti við Breta eftir útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu, segir þreifingar hafnar af hálfu EFTA ríkjanna til að standa saman í viðræðunum.

Stefán, sem mun um miðjan næsta mánuð taka við sem sendiherra Íslands í Bretlandi, segir nauðsynlegt að tryggja að ekki verði truflun á viðskiptum Íslands og Bretlands við útgönguna. Við brotthvarf hans mun Andri Lúthersson taka við formennsku stýrihópsins en undir honum starfa svo sex vinnuhópar, skipaðir fulltrúum ráðuneyta og hagsmunaaðila. 

Helsta krafan í viðræðunum við Breta

Sigurgeir Þorgeirsson í Atvinnuvegaráðuneytinu sem er í forystu fyrir vinnuhópi eitt segir markmiðið vera að alger fríverslun verði með sjávarafurðir milli landanna. „Það er nú þannig að í gegnum EES samninginn og í einstökum tilvikum gagnvart gamla EFTA samningnum höfum við almennt mjög góð kjör inn á Evrópu,“ segir Sigurgeir í samtali við Fiskifréttir um málið. 

„Það eru nokkrar afurðir hins vegar þar sem eru ekki algjör tollfríðindi eða að því er mönnum finnst ekki fullnægjandi tollkvótar og við munum sækja á um það, og það er held ég ekkert leyndarmál og ég held að Bretum hafi þegar verið sagt það, að við viljum algjöra fríverslun með sjávarafurðir.“

Þetta verður helsta krafa okkar Íslendinga í viðræðunum við Breta, segir Sigurgeir, en „til vara að það verði ekki lakari kjör heldur en okkur bjóðast í dag.“

Fá stjórn eigin fiskveiða á ný

Sigurgeir nefnir einnig að nauðsynlegt verði að ná samningum við Breta um deilistofna sem flakka á milli lögsagna ríkjanna. Síðan hafa Bretar einnig horft til íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins þegar þeir fá tækifæri til að þróa eigin sjávarútvegsstefnu á ný bendir Stefán á.

Stefán nefnir einnig staðfesturéttinn, sem byggir á þeim rétti fjórfrelsisins að setja upp fyrirtæki án vandkvæða í öðrum ESB reglum.

Gætum verið hluti af hnattrænni fríverslun

„Bretar hafa reyndar lýst því yfir að það sé markmið þeirra að ganga fram fyrir skjöldu í því að þróa áfram frjáls viðskipti alþjóðlega, hnattrænt,“ segir Stefán. 

„Í þessu geta fólgist kannski ákveðin tækifæri fyrir okkur þannig að við þurfum auðvitað að fylgjast grannt með og sjá hvort við gætum notið góðs af og fylgt í kjölfarið eða verið hluti af jafnvel.“