Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ráðið þau Steinar Kaldal stjórnmála- og umhverfisfræðing og Þórunni Pétursdóttur, landgræðsluvistfræðing sem aðstoðarmenn sína.

Steinar Kaldal
Steinar Kaldal
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Steinar Kaldal er formaður félags umhverfisfræðinga

Síðastliðin ár hefur Steinar unnið sem verkefnisstjóri hálendisverkefnis Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landverndar sem er samvinnuverkefni náttúruverndarsamtaka, útivistarsamtaka og Samtaka ferðaþjónustunnar og snýr að vernd miðhálendisins. Steinar er jafnframt formaður FUMÍ, félags umhverfisfræðinga á Íslandi.

Steinar er með stúdentspróf frá Menntaskólanum við Sund, BA-próf í stjórnmálafræði með atvinnulífsfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands og mastersgráðu (MSc) í umhverfisstjórnun- og stefnumótun frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Steinar hefur auk þess lokið fréttamannaprófi Ríkisútvarpsins.

Steinar hefur m.a. starfað sem leiðbeinandi á leikskóla, blaðamaður á Fréttablaðinu, verkefnastjóri í Frístundamiðstöðinni Frostaskjóli og sem sérfræðingur hjá Útlendingastofnun.

Steinar er giftur Soffíu Erlu Einarsdóttur ráðgjafa á meðferðarstöðinni Stuðlum og eiga þau tvo drengi.

Þórunn Pétursdóttir
Þórunn Pétursdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þórunn Pétursdóttir starfaði fyrir Evrópusambandið

Þórunn Pétursdóttir nam umhverfisfræði við Garðyrkjuskóla ríkisins og landfræði við Háskóla Íslands.

Hún lauk mastersgráðu (MSc) í landgræðsluvistfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands og er að ljúka doktorsgráðu í landgræðsluvistfræði frá sama skóla.

Þórunn sat um árabil í stjórn Landverndar og var í fyrstu stjórn Vatnajökulsþjóðgarðar. Hún hefur starfað hjá Landgræðslu ríkisins frá árinu 2003 og sinnt þar fjölbreyttum verkefnum, fyrst sem héraðsfulltrúi á Vesturlandi en síðar sem sérfræðingur, m.a. á sviði sjálfbærni og vistheimtar.

Þá hefur hún tekið þátt í margvíslegum samstarfsverkefnum, innlendum sem og erlendum, sem tengjast m.a. auðlindanýtingu og umhverfisvernd.

Á árunum 2010 – 2013 var Þórunn í rannsóknarnámsstöðu hjá Institute of Environment and Sustainability sem er ein af rannsóknarstofnunum Framkvæmdaráðs Evrópusambandsins. Þórunn er í sambúð og á fjögur börn og tvö barnabörn.