*

mánudagur, 23. október 2017
Innlent 2. júlí 2012 12:42

Steingrímur segir kreppuna dýpka á evrusvæðinu

Verði samdrátturinn á evrusvæðinu verulegur og langvarandi gæti kreppan orðið verri en í fjármálakreppunni.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Haraldur Guðjónsson

Flest bendir til þess að kreppan sé að herða tökin á evrusvæðinu og fylgjast stjórnvöld hér á landi grannt með þróun mála. Sérstakir vinnuhópar hafa ekki verið settir á stofn vegna stöðunnar en allt hefðbundið viðbúnaðarkerfi virkjað.

Stjórnvöld fylgjast með stöðunni og hefur fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðuneytis í Brussel fylgst með fundum og umræðum á vettvangi Evrópusambandsins auk þess sem farið er reglubundið yfir þróun efnahagsmála í ráðherranefnd um efnahagsmál þar sem embættismenn ráðuneyta, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjóri hafa gert grein fyrir mati sínu á stöðunni á evrusvæðinu.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Illuga Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. 

Illugi spurði m.a. um það hvaða undirbúningur hafi farið fram hjá stjórnvöldum vegna mögulegrar útgöngu Grikklands úr evrusamtarfinu og þeirra afleiðinga sem það geti haft. Illugi spurði sömuleiðis hvaða vinnuhópar hafi verið stofnaðir vegna þessa og hvort málið hafi verið tekið formlega upp í ríkisstjórn. 

Gæti valdið kreppu hér

Í svari efnahags- og viðskiptaráðherra segir að fylgst sé grannt með þróun mála, ekki síst í helstu viðskiptalöndunum. Þá segir að staða ríkja innan evrusvæðisins sé mjög misjöfn og því reyni á samstarfsvilja landanna við lausn vandans eins og m.a. hafi komið fram í umfjöllun um Grikkland og Spán. Í Bandaríkjunum eru nokkur batamerki, en atvinnuleysi er enn mikið og skuldir ríkissjóðs áhyggjuefni. Bakslag gæti því komið í efnahagsbatann í Bandaríkjunum ef vandinn í Evrópu vindi enn meira upp á sig. Að þessu sögðu sé líklegt að alvarleg kreppa í Evrópu verði jafnframt alþjóðleg kreppa. Dýpkandi kreppa í okkar mikilvægustu viðskiptalöndum muni óumflýjanlega hafa neikvæð áhrif á innlendan hagvöxt og getur þar með gert örðugra að aflétta gjaldeyrishöftum.

Á hinn bóginn er bent á að fjármögnun ríkissjóðs er enn viðkvæm fyrir áföllum en staða ríkissjóðs er rúm og ekki þörf fyrir endurfjármögnun næstu missirin. Þá er efnahagsreikningar innlendra fjármálastofnana að mestu leyti í íslenskum krónum í formi innlána. Bein áhrif af stöðu mála á erlendum mörkuðum verða því takmörkuð. Dragi úr eftirspurn á heimsmarkaði muni það að öllum líkindum hafa áhrif á verðlag mikilvægustu útflutningsafurða hér, fiskafurða og áls. Mikilvægir markaðir fyrir fiskafurðir eru í löndunum í Suður-Evrópu sem nú eiga í mestum vanda. Ef samdráttur verður verulegur og langvarandi má búast við meiri áhrifum en í kjölfar fjármálakreppunnar 2008–2009. 

Svar ráðherra við fyrirspurn Illuga Gunnarssonar