Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður, þá fyrir Alþýðubandalagið, lýsti sig hlynntan útrás banka í þingræðu 17. desember 1998.

Til umfjöllunar var stofnun Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA), en Steingrímur var andvígur henni og taldi réttar að þeir sjóðir sem voru sameinaðir í FBA rynnu inn í sameinaðan Landsbankan og Búnaðarbanka.

„Ég er hiklaust þeirrar skoðunar, herra forseti, að vænlegast hefði verið að stokka upp ríkisbankana tvo og hina opinberu fjárfestingarlánasjóði og leggja með því grunninn að einni mjög öflugri innlendri fjármálastofnun, sem hefði fyrst um sinn verið og átt að vera alfarið í eigu ríkisins eða a.m.k. að yfirgnæfandi meiri hluta í eigu ríkisins, til þess að tryggja inn í framtíðina a.m.k. eina sterka, innlenda fjármálastofnun sem hefði burði til þess að veita stærstu fyrirtækjum landsins þjónustu og gæti á allan hátt staðið í stykkinu hvað varðar starfsemi sína, starfssvið sitt og jafnvel átt í fullu tré við erlenda samkeppni og þess vegna leitað út á við eða sótt út á við með viðskipti sín .“

Pistlahöfundurinn Óðinn fjallar um ummæli Steingríms í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun og bendir á að tjón ríkisins hefði getað orðið gríðarlegt ef stór ríkisbanki hefði orðið raunin í ljósi þess að ríkisbankarnir voru með ábyrgð ríkisins.