Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir í samtali við Viðskiptablaðið að sér sé ekki kunnugt um að fleiri kröfur um gjaldþrotaskipti hafi komið fram á hendur slitabúinu.

Sem kunnugt er lagði Heiðar Guðjónsson fram slíka kröfu fyrir nokkru síðan, en áður en taka átti kröfuna fyrir í héraðsdómi fyrir tveimur vikum síðan var fjárkrafa hans greidd upp af erlendum aðila . Var gjaldþrotakrafa Heiðars því ekki tekin fyrir. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær íhuga aðilar í kröfuhafahópi Glitnis þessa dagana að leggja fram slíkar kröfur.

Aðspurð hvort hún viti til þess að kröfur um gjaldþrotaskipti hafi komið fram í þessari viku segir Steinunn: „Ég hef ekki athugað það, ég er ekki að vakta þetta. Þetta kemur til héraðsdóms og svo myndi héraðsdómur láta okkur vita. Ef það hefði til dæmis komið fram krafa í þessari viku þá er ekkert víst að héraðsdómur væri búinn að láta okkur vita af því,“ segir hún.