Velta Creditinfo Group Ltd., móðurfélags Lánstrausts hf., jókst um 25% á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tíma á síðasta ári að því er kemur fram í frétt félagsins. Þar er um innri aukningu að ræða þar sem félagið hefur ekki fjárfest í nýjum félögum á þessum tíma. Sala jókst úr 8,25 milljónum evra í 10,8 milljónir evra, eða 950 milljónir króna að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Hagnaður tímabilsins nam 900 þúsund evrum en á sama tíma í fyrra var 400 þúsund evra tap, að hluta til vegna óhagstæðrar gengisþróunar.

Veltuaukningin nú verður einkum rakin til vaxtar á Íslandi, í Kasakstan og í Litháen auk umtalsverðs umsnúnings á starfseminni í Grikklandi. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að áframhald verði á jákvæðri afkomu Þess út árið.

Velta Creditinfo jókst um 40% á síðasta ári og nam 16,5 milljónum evra. Áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir 25% veltuaukningu á þessu ári. Creditinfo Group keypti í upphafi árs 25% hlut í fyrirtækinu Zvilgnis Is Arciau í Litháen og eignaðist allt hlutafé félagsins.

Creditinfo Group hefur starfað á alþjóðlegum vettvangi á sviði lánshæfisupplýsinga og áhættustýringar frá árinu 2002, með áherslu á nýmarkaði. Félagið er með starfsemi í fjölda landa, einkum í Mið- og Austur-Evrópu. Starfsmenn félagsins eru 250, þar af um 60 á Íslandi. Ríflega 60% af tekjum félagsins koma erlendis frá.