Seint á áttunda áratug nýliðinnar aldar veltu margir fyrir sér hvort að fyrrverandi leikari ætti erindi í Hvíta húsið, reyndar svaraði einn maður spurningunni játandi þar sem að það væri skárra en að hafa trúðinn sem þá bjó á þeim tíma í þeim híbýlum. Sama spurning vaknar upp nú þar sem að leikarinn Fred Thompson hefur lýst því yfir að hann sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.

Lengsta inngöngumars bandarískrar sögu lauk þegar Fred Thompson, sem er meðal annars þekktur fyrir leik sinn í þáttaröðinni Law and Order og kvikmyndinni The Hunt for Red October, lýsti því yfir að hann gæfi kost á sér í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember á næsta ári. Á sama tíma og aðrir þátttakendur í forvalinu tóku þátt í kappræðum sem sýndar voru á sjónvarpstöðinni Fox opinberaði Thompson áform sín í sjónvarpsþætti Jay Leno. Þrátt fyrir að vera þekktastur fyrir störf sín í afþreyingariðnaðinum er Thompson enginn nýgræðingur í stjórnmálum: Hann hefur setið í öldungadeild þingsins, starfað bæði sem lögfræðingur og fyrir þrýstihópa í höfuðborginni, Washington D.C.

Þrálátur orðrómur hefur verið um að Thompson myndi bjóða sig fram frá vordögum en leikarinn var sérstaklega áberandi í fjölmiðlum þá og fram á sumar. Hann veitti hinum umdeilda heimildarmyndagerðarmanni Michael Moore ærlega ráðningu á myndbandi sem var sett á YouTube vefinn auk þess sem að hann lét í ljós skoðanir á umhverfismálum og skotvopnaeign sem eru bandarískum íhöldsmönnum mjög að skapi. Vinsældir hans sem leikara, traustvekjandi útlit og alþýðlegt fas hans fékk marga til að trúa að hann væri rétti maðurinn til þess að tryggja að repúblikanar héldu lyklavöldunum í Hvíta húsinu: Hann gæti höfðað til þeirra sem eru yst til hægri án þess að fæla frá kjósendur á miðju stjórnmálanna.

Og það er ljóst að hann á möguleika á því að hreppa útnefninguna þar sem kannanir hafa alla jafna sýnt að hann njóti næst mest fylgis, á eftir Rudy Giuliani, á meðal repúblikana í lykilríkjum forvalsins, en hinsvegar leiðir Mitt Romney í Iowa og New Hampshire. Þau ríki halda forvalskosningar snemma og fá þær því mikla fjölmiðlaathygli og hefur því gott gengi þar mikið að segja um gengi frambjóðenda í öðrum ríkjum. Lítil stemmning hefur verið í kosningabaráttu repúblikana og gætt hefur óánægju með þá frambjóðendur sem fyrir voru en margir stuðningsmenn flokksins, sérstaklega í suðurríkjunum, telja þá Guiliani og Romney vera of frjálslynda í afstöðu sinni til mála eins og fóstureyðinga.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.