*

þriðjudagur, 23. apríl 2019
Innlent 9. október 2012 10:59

Stímfélag Jakobs Valgeirs gjaldþrota

Ofjarl átti 10% hlut í félagi sem keypti hlutabréf í FL Group og Glitni fyrir rúma 20 milljarða tæpu ári áður en allt fór á hliðina.

Jón Aðalsteinn Bergsvein

Einkahlutafélagið Ofjarl ehf var tekið til gjaldþrotaskipta í Héraðsdómi Reykjavíkur miðvikudaginn 3. október síðastliðinn. Félagið var í eigu þeirra Jakobs Valgeirs Flosasonar og Ástmars Ingvarssonar. Félagið átti 10% hlut í félaginu Stím. Skiptastjóri hefur kallað eftir kröfum í þrotabú Ofjarls.

Stím var stofnað í nóvember árið 2007. Það keypti 14,3% hlut í Glitni fyrir 16,4 milljarða króna og 3,8% hlut í FL Group fyrir 8,4 milljarða króna. Glitnir lánaði 19,6 milljarða króna kúlulán til tólf mánaða til kaupanna eða sem nam 80% af kaupverðinu með veði í bréfunum sjálfum. FL var á þessum tíma stærsti hluthafi Glitnis. Bankinn átti á sama tíma 32,5% hlut í Stími og ætlaði til endursölu. Fram hefur komið að viðskiptin hafa verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, sem m.a. hefur framkvæmt húsleit vegna rannsóknarinnar. 

Þeir Jakob Valgeir og Ástmar áttu til viðbótar við 10% hlut Ofjarls í Stími sinn hvorn 2,5% hlutinn í félaginu. Stím var svo tekið til gjaldþrotaskipta í maí síðastliðnum.

Skuldaði bönkunum 30 milljarða

Fjallað er um útgerðarmanninn og fjárfestinn Jakob Valgeir í í Rannsóknarskýrslu Alþingis sem kom út fyrir tveimur árum. Þar eru talin upp átta félög honum tengd auk áhættuskuldbindinga í hans eigin nafni. Þar kemur fram að skuldir félaga Jakobs og hans sjálfs gagnvart Landsbankanum námu tæpum 17,2 milljörðum króna. Skuldir hans og félaganna gagnvart Glitni námu því til viðbótar rúmum 14,6 milljörðum króna. Heildarskuldbindingar námu þessu samkvæmt rúmum 31,8 milljörðum króna. 

Í skýrslunni kemur m.a. fram að skuldbindingar Ofjarls gagnvart Landsbankanum námu 105 milljónum króna 30. september árið 2008. 

Ofjarl tapaði 8,2 milljónum króna í fyrra og bættist það við 24,6 milljóna króna tap árið 2010. Fram kemur í ársuppgjöri félagsins að það átti um síðustu áramót eignir upp á 71,7 milljónir króna. Á móti námu skuldir og skuldbindingar rúmum 177,8 milljónum króna. Þar af var voru 118,2 milljóna skuldir við lánastofnanir og 17,9 milljónir gagnvart ríkissjóði. Gjaldfallnar afborganir lána námu tæpum 25,2 milljónum króna. Eigið fé Ofjarls var á sama tíma neikvætt um rúmar 106 milljónir króna. 

Tekið er fram í ársreikningi Ofjarls að félagið hafi verið í ábyrgð fyrir skuldum tengds félags upp á 1,6 milljarða króna um síðustu áramót. 

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim