Í árlegri skýrslu Hafrannsóknarstofnunar sem út kom í júní árið 2017 var eftirfarandi ráðgjöf gefin um humarveiðar: „Hafrannsóknastofnun ráðleggur, í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarks afraksturs til lengri tíma litið (MSY), að afli fiskveiðiárið 2017/2018 verði ekki meiri en 1150 tonn.“

Þó fiskveiðiárið hafi verið framlengt og staðið fram á vetur 2018, tókst ekki að veiða úthlutað magn, fjórðung vantaði þar á, alls 281 tonn. Aldrei í 61 árs sögu, humarveiða, hefur ársafli verið minni en á árinu 2018 – 728 tonn.

Hrun í nýliðun

Eins og fram hefur komið hefur orðið hrun í nýliðun sem leitt hefur til þess að nánast engin humar yngri en 10 ára veiðist. Gögn Hafrannsóknastofnunar sýna þróun þar sem nýliðun er varla merkjanleg árin 2016 og 2018, og samkvæmt skýrslu stofnunarinnar er hún í sögulegu lágmarki.

Á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í október sl. vék undirritaður að ástandi humarstofnsins:

Landssambandið hefur ávallt fylgst vel með sjónarmiðum sjómanna á lífríki sjávar. Miðlað þeim síðan með sínum hætti til Hafró. Til dæmis hafa sjómenn bent á það í mörg ár að veiðiaðferðir sem stundaðar eru á humri séu að ganga frá stofninum. Jafnskjótt og hann vaxi er trollað yfir búsvæðin hvert á fætur öðru. Bent hefur verið á hvernig veiðarfærið hefur breyst, þyngdin sé slík að nota þarf stærstu skip til að draga trollin eftir botninum. Heimiluð hefur verið stækkun humarskipa og takmarkanir á veiðitíma rýmkaðar. Þó nýliðun sé nú að nálgast núllið skal áfram haldið, engar tillögur um t.d. lokun svæða, styttri veiðitíma eða léttara veiðarfæri.“

Dropinn holar steininn.

Í nýlegri ráðgjöf um humarveiðar fyrir árið 2019 leggur Hafrannsóknastofnun til að óheimilt verði að nota botntroll við veiðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkur- og Hornafjarðardjúpi. Auk þess leggur stofnunin til að allar humarveiðar verði bannaðar í Jökul- og Lónsdjúpi.

Heildarveiði verði ekki meiri en 235 tonn, eða aðeins fimmtungur þess sem stofnunin ráðlagði á síðasta ári.

Það vekur athygli að Hafrannsóknastofnun skuli ekki gera greinarmun á stærð veiðiskipa og þunga trollsins. Lagðir eru að jöfnu hvað varðar aðgang að miðunum, 188 brúttótonna fiskiskip með eitt troll og 531 brúttótonna togari með tvö troll. Á undanförnum árum hafa skipin sífellt orðið öflugri og flest þeirra veiða með tvö troll. Þá hefur þynging á milli tveggja trolla sífellt aukist og er að sögn kunnugra 1,5 tonn. Fargið grefur sig niður í botninn þ.a. að ef afllítill bátur lendir með trollið í skurðinum situr allt fast.

Nær hálfrar aldar reynsla

Þann 11. janúar sl. birtist grein um ástand humarstofnsins í Mannlífi. Þar var m.a. viðtal við Ólaf Björn Þorbjörnsson skipstjóra og humarveiðimann í tæpa hálfa öld. Ólafur gerir út Sigurð Ólafsson SF. Gefum Ólafi orðið:

„Við höfum eyðilagt þetta sjálfir, sjómenn og útgerðarmenn, með ofveiði og allt of stórvirkum veiðarfærum undanfarin 10 ár.“

Í viðtalinu segist Ólafur telja að samhengi sé á milli hruns stofnsins og þess að stærri útgerðir hafi fyrir um 10 árum breytt veiðiaðferðum sínum.

„Þá fóru þeir að koma á miklu öflugri skipum og þyngdu veiðarfærin og hlerana.“

Ólafur segir orsökina fyrir hnignun stofnsins megi rekja til þess að verið sé að eyðileggja sjávarbotninn þar sem humarinn hefst við.

Að lúta náttúrunni

Í Fiskifréttum þann 7. febrúar bregst Sigurgeir Brynjar Kristgeirssonar forstjóri Vinnslustöðvarinnar við tillögum Hafró; segir að í augnablikinu sé töluverð óvissa í kringum komandi vertíð – ekki síst hvort „leyfi verður gefið til að veiða það sem eftir varð af kvóta síðustu vertíðar til viðbótar við þau 235 tonn sem leyfa á veiðar á þetta árið.“

Þarna á Sigurgeir Brynjar væntanlega við að Hafrannsóknastofnun bæti 281 tonni við ráðleggingu sína – hækki ráðgjöfina um 120% á stofni sem nú virðist rústir einar.

„Þetta hefur mikil áhrif, bæði í fyrirtækjunum og samfélögunum. En við ráðum ekki við náttúruna hvað þetta varðar. Við verðum bara að lúta henni og vera skynsöm. Við erum ekki að fara að taka sénsa á að veiða niður humar,“ segir Binni.

Spurningin er, getur það talist ráðlegt að auka ráðgjöfina yfir hundrað prósent og með því sé ekki verið að taka sénsa á að veiða niður humarinn?

Skynsamlegt að hvíla veiðisvæðin

Eins og fram kom hafa humarveiðar verið stundaðar frá árinu 1957. Veiðistjórnun með kvótum var komið á 1970 og hefur heildaraflinn lengst af fylgt ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar. Því miður er fátt sem bendir til að veiði í einhverri mynd verði á næstu árum.

Skynsamlegt væri að hvíla veiðislóðina, banna alfarið veiðar á henni. Hefja veiðar að nýju með gildrum á þriðjungi svæðanna, veiðar með einu trolli á öðrum þriðjungi og tveimur trollum á þriðja þriðjungi veiðisvæðanna. Með þessu móti fengist samanburður á árangri við uppbyggingu humarsstofnsins.

Best fyrir lífríkið

Í ályktunum aðalfundar LS síðustu ár hefur verið skorað á stjórnvöld að bregðast við ástandinu og leyfa humrinum að njóta vafans.

„Að stjórnvöld hugi alvarlega að skaðsemi trollveiða á humri á lífríki sjávar. Út frá rannsóknum á skaðsemi trollveiða liggur það í augum uppi að ekki verði hægt að bjóða náttúrunni upp á slíkar aðfarir til lengdar.“

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda