Stjórn Kviku banka hefur lagt til ýmsar breytingar á samþykktum félagsins vegna kaupa bankans á Virðingu, en hluthafar verðbréfafyrirtækisins samþykktu kauptilboð bankans í lok síðasta mánaðar. Viðskiptablaðið hefur undir höndum tillögur stjórnar Kviku banka til hluthafafundar sem haldinn verður á morgun, 14. júlí 2017, en þar er m.a. lagt til að sett verði inn nýtt ákvæði í samþykktir félagsins um minnihlutavernd í formi tilboðsskyldu, að stjórnin fái heimild til að hækka hlutafé Kviku um allt að tvo milljarða og að útgáfu áskriftarréttinda verði breytt.

Kaupverð fyrir allt hlutafé Virðingar nemur 2.560 milljónum króna eða 4,338 krónum fyrir hvern hlut í félaginu. Tilboðið var samþykkt af 96,89% hluthöfum Virðingar en kaupin eru jafnframt háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.

VÍS næst hámarkinu

Í fyrrgreindri tillögu stjórnar er lagt til að sett verði inn nýtt ákvæði í samþykktir Kviku, þar sem kveðið er á tilboðsskyldu að­ ila sem ná beint eða óbeint yfirráð­ um í félaginu gagnvart eigendum hlutafjár. Með yfirráðum er þannig átt við aðila sem hafa samanlagt eignast meira en 33,33% atkvæðisrétt í félaginu eða öðlast rétt til þess að tilnefna eða setja af meirihluta stjórnar í félaginu.

Enginn einn hluthafi er sérstaklega nærri marki því sem lagt er til í greininni en tryggingafélagið VÍS er um þessar mundir langstærsti hluthafi Kviku með tæplega 25% hlut. Ef það kemur því síðar meir til með að reyna á greinina er líklegast það verði VÍS sem eignist svo stóran hlut í félaginu og verði þá skylt að gera öðrum minni hluthöfum félagsins tilboð um að kaupa hluti þeirra.

Aðrir hluthafar fyrir utan VÍS eru meðal annars félagið RES II, sem er í eigu Sigurðar Bollasonar fjárfestis og Gunnars Henriks B. Gunnarssonar, með 9,92 pró­ sent og Lífeyrissjóður verslunarmanna á auk þess ríflega 9,5 pró­ senta hlut.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.