Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 26,8% fylgi og Framsóknarflokkurinn með 13,9% samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2 á fylgi stjórnarflokkanna. Þetta jafngildir því að flokkarnir myndu fá 40,7% atkvæða yrði gengið til kosninga nú og myndu fá 26 þingmenn í stað 38 í síðustu kosningum í fyrravor og missa meirihluta á þingi.

Í síðustu þingkosningum var Sjálfstæðisflokkurinn með sambærilegt fylgi og nú. Framsóknarflokkurinn fékk hins vegar 24,4% atkvæða í kosningunum.

Í skoðanakönnuninni tekur Björt framtíð mesta stökkið en flokkurinn mælist með 18,4% fylgi. Í kosningunum í fyrra fékk flokkurinn 8,2% atkvæða. Þá fengju VG 11,3% atkvæða og Píratar 10,2% atkvæða yrði gengið til kosninga nú. Tekið er fram í Fréttablaðinu að þetta sé fyrsta skiptið sem Píratar rjúfa 10% múrinn í skoðanakönnun blaðsins.