*

sunnudagur, 22. júlí 2018
Innlent 10. maí 2017 17:57

Stjórnarformaður Arion hættir

Monica Caneman stjórnarformaður lætur af stjórnarsetu í Arion banka og tekur Guðrún Johnsen varaformaður stjórnar við.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Monica Caneman hefur ákveðið að láta af stjórnarsetu í Arion banka en hún  hefur gegnt stjórnarformennsku í bankanum frá árinu 2010. Guðrún Johnsen, sem hefur verið varaformaður á tímabilinu, tekur við sem stjórnarformaður bankans.

Monica Caneman segir það hafa verið afar ánægjulegt að taka þátt í uppbyggingu bankans á undanförnum sjö árum og upplifa þær jákvæðu breytingar sem hafi átt sér stað. „Þetta hefur verið viðburðaríkur tími þar sem bankinn, rétt eins og íslenskt efnahagslíf, hefur styrkst á öllum sviðum, segir Monica.

„Arion banki nýtur nú góðrar stöðu á þeim mörkuðum sem hann starfar og er fjárhagslega sterkur. Mikilvægasti drifkraftur bankans er frábært starfsfólk sem hefur staðið sig virkilega vel á undanförnum árum við að byggja upp góðan banka.

Nýlegar breytingar á eignarhaldi bankans marka ákveðin þáttaskil. Frekari breytingar á eignarhaldi munu eiga sér stað á næstunni og nýr kafli er því að hefjast. Ég tel rétt á þessum tímapunkti að láta öðrum eftir stjórnarformennsku.Ég þakka stjórnarmönnum bankans, stjórnendum og starfsfólki öllu fyrir farsælt samstarf á undanförnum sjö árum og óska Arion banka velfarnaðar í framtíðinni.“