Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, formaður stjórnar Íbúðalánasjóðs, hefur beðist lausnar úr stjórn Íbúðalánasjóðs. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sjóðnum til Kauphallarinnar.

Ingibjörg Ólöf mun taka við nýju starfi á erlendum vettvangi á næstunni.

Núverandi varaformaður, Sigurbjörn Ingimundarson, kemur til með að taka við formennsku í stjórninni tímabundið þar til ráðherra skipar nýjan stjórnarformann.

„Ég vil þakka bæði núverandi og fyrrverandi húsnæðismálaráðherrum, stjórnarmönnum, forstjóra, nefndarmönnum og hinu frábæra starfsfólki sjóðsins fyrir ánægjulegt samstarf síðustu fjögur ár. Við höfum sameiginlega náð að snúa rekstrinum við og það er mjög ánægjulegt að hafa átt þátt í því mikla umbótaferli sem sjóðurinn hefur gengið í gegnum. Ég óska nýjum stjórnarformanni og Íbúðalánasjóði alls hins besta," er haft eftir Ingibjörgu í tilkynningu.