Ekki tókst að kjósa löglega í stjórn Eimskips á aðalfundi félagsins í gær þar sem stjórnarkjörið uppfyllti ekki lög um kynjahlutföll. Því þarf að að halda framhaldsaðalfund innan mánaðar.

Sex voru í kjöri, þau Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður, Hrund Rudolfsdóttir, Guðrún Blöndal og Lárus Blöndal, sem nú sitja í stjórn Eimskips. Auk þess voru Vilhjálmur Vilhjálmsson, fyrrverandi forstjóri HB Granda og Óskar Magnússon, fyrrverandi útgefandi Morgunblaðsins í kjöri.

RÚV segir frá því að Baldvin Þorsteinsson, hafi verið þriðji í kjöri um stjórnarformann í nýrri stjórn á eftir Lárusi Blöndal og Vilhjálmi Vilhjálmssyni, áður en í ljós kom að kjósa þyrfti stjórn á nýjan leik vegna kynjahlutfalls. Hlutfall hvors kyns í stjórnum skráðra félaga má ekki vera lægra en 40% lögum samkvæmt.

Baldvin baðst á miðvikudaginn afsökunar á orðaskiptum sínum við Má Guðmundsson seðlabankastjóra eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og Samherjamálið var til umræðu. „Hafðu smá sómakenndi og drullaði þér í burtu,“ sagði Baldvin við seðlabankastjóra eftir að Már hafði reynt að ræða við faðir hans Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja.