*

mánudagur, 21. janúar 2019
Innlent 9. mars 2018 11:25

Stjórnarmenn VR komu af fjöllum

Stjórnarmenn í VR lásu fyrst um vangaveltur formannsins um að deildaskipta félaginu í fjölmiðlum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Stjórnarmenn í VR segja að möguleg deildaskipting félagsins hafi ekki verið rædd með formlegum hætti í stjórn VR. Í Viðskiptablaði gærdagsins ræddi Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stjórnar VR, þann möguleika að deildaskipta félaginu til að mæta mismunandi þörfum félagsmanna. Stjórnendur tæknifyrirtækja hafa áhyggjur af mögulegum verkföllum félagsins og þeim afleiðingum sem það kynni að hafa fyrir fyrirtæki þeirra. Þetta hafi á sínum tíma leitt til úrsagna úr VR.

Þessar vangaveltur hafi komið stjórnarmönnum sem Viðskiptablaðið ræddi við á óvart. Deildaskipting félagsins hefur verið til umræðu með óformlegum hætti undanfarin ár en hafi ekki verið tekin fyrir sérstaklega á vettvangi félagsins.

Þetta sé þó ekki í fyrsta skipti sem stjórnarmenn í félaginu lesi um málefni félagsins í fjölmiðlum, því sömu sögu sé að segja af fyrirhugaðsri stofnun leigufélags VR, sem hafi lítið sem ekkert verið rætt innan stjórnar. Þá vekur athygli að fundargerðir stjórnarfunda VR frá því í október á síðasta ári hafa ekki birst á vef félagsins.