Dagana 23.-24. september næstkomandi fer fram á Akureyri alþjóðleg og þverfagleg ráðstefna um stjórnarskrárendurskoðun. Ráðstefnan er haldin í samstarfi forsætisráðuneytis, stjórnarskrárnefndar og Háskólans á Akureyri.

Markmiðið er að efna til upplýstrar umræðu um málefni stjórnarskrárinnar í aðdraganda alþingiskosninga, segir í fréttatilkynningu frá forstætisráðuneytinu.

Upphafsávarp á ráðstefnunni flytur Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Fjöldi innlendra og erlendra fræðimanna flytur erindi um margvíslegar hliðar stjórnarskrárendurskoðunar hér á landi og erlendis.

Að loknu ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, forsætisráðherra, í lok fyrri dags ráðstefnunnar, munu fara fram pallborðsumræður fulltrúa stjórnmálaflokkanna í stjórnarskrárnefnd.

Stjórnarskrárnefnd, sem skipuð var af forsætisráðherra 2013, var falið að leggja til breytingar á stjórnarskránni, með hliðsjón af þeirri vinnu sem farið hefur fram á undanförnum árum og annarri þróun í stjórnarskrármálum. Í júlí síðastliðnum skilaði nefndin af sér tillögum um:

  1. þjóðareign á náttúruauðlindum,
  2. umhverfis- og náttúruvernd og
  3. þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu hluta kjósenda. Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp þessa efnis á Alþingi og það er nú til umfjöllunar þar.