Forsætisráðherra lagði í dag fram á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga þess efnis að þrjár nýjar greinar bætist við stjórnarskrána.

Tillögur þverpólítískrar stjórnarskrárnefndar

Fjalli þær um umhverfisvernd, náttúruauðlindir og þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu kjósenda.

Sigurður Ingi Jóhannsson lagði frumvarpið fram sem þingmannafrumvarp og er það efnislega samhljóða tillögum þverpólitískrar stjórnarskrárnefndar sem afhentar voru forsætisráðherra í júlí síðastliðnum.

Þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu 15% kosningabærra

Í greininni sem fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslur er tekið fram að 15% kosningabærra manna geti krafist þess að nýstaðfest lög og þingsályktunartillögur frá Alþingi verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu.

Kröfuna þurfi að leggja fyrir ráðherra innan sex vikna frá birtingu laganna og þurfi atkvæðagreiðslan að fara fram í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir að staðfest krafa liggi fyrir.

Skattamál, þjóðréttarskuldbindingar og fjárlög undanskilin

Þó eru lög um skattamálefni, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum, fjárlög og fjáraukalög undanskilin. Alþingi geti þó fellt úr gildi lög eða afturkallað ályktanir áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu komi.

Jafnframt geti tveir þriðju hlutar Alþingis sent ályktanir sem hafi réttaráhrif eða feli í sér mikilvæga stefnumörkun í þjóðaratkvæðagreiðslur.

Náttúruauðlindir í þjóðareign

Greinin sem fjallar um auðlindir Íslands skilgreinir þær náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki séu háð einkaeignarrétti sem þjóðareign, en að ríkið hafi eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna í umboði þjóðarinnar.

Jafnframt að nýtingarheimildir leiði aldrei til varanlegs eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir náttúruauðlindum eða landsréttindum í þjóðareign og að taka skuli eðlilegt gjald fyrir nýtingarheimildir.

Réttur til heilnæms umhverfis

Greinin sem fjallar um náttúruauðlindir gefur almenningi rétt til að njóta heilnæms umhverfis, og að almenningur hafi rétt til upplýsinga um umhverfið og áhrif framkvæmda á það og þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem hafi áhrif á umhverfið.

Hér má lesa frumvarpið í heild sinni.