Að skipta um stjórnendur getur reynst nokkuð kostnaðarsamt. Launakostnaður vegna stjórnar og lykilstjórnenda Skeljungs hækkaði um 46% milli ára, úr 308 milljónum króna í 450 milljónir króna. Munaði þar mest um að launagreiðslur til Valgeirs Baldurssonar, sem lét af störfum sem forstjóri Skeljungs í lok ágúst, hækkuðu úr 44 milljónum króna í 103 milljónir króna milli ára. Jón Diðrik Jónsson, stjórnarformaður Skeljungs, gaf út í yfirlýsingu að í greiðslum til Valgeirs fælust öll laun fram að uppsögn, laun á  uppsagnarfresti, óúttekið orlof, auk lokunar á þriggja ára gömlu árangurstengdu kaupaukakerfi, sem árlega hafði verið frestað greiðslum úr. Engar hækkanir hefðu átt sér stað á launum Valgeirs í tengslum við starfslok hans. Auk þess urðu breytingar á tveimur framkvæmdastjórastöðum hjá Skeljungi. Gjaldfærð en ógreidd laun Valgeirs og tveggja fyrrverandi framkvæmdastjóra námu 97 milljónum króna í árslok 2017.

Lagt er til að laun vegna stjórnarformanns Skeljungs verði 650 þúsund á mánuði og annarra stjórrnarmanna 320 þúsund krónur á mánuði. Í yfirlýsingu frá Skeljungi segir að launabreytingarnar séu hluti af  skipulagsbreytingar á síðasta ári sem ætlað var að einfalda rekstur félagsins og tryggja að samstæða félagsins yrði rekin sem ein heild. Fækka á utanaðkomandi stjórnarmönnum í dótturfélögum og stjórnarvinna félagsins verði í auknum mæli færð á einn stað í móðurfélaginu. Við þetta muni heildarstjórnarlaun samstæðunnar lækka um 8,4%.

Launakostnaður stjórnar og lykilstjórnenda VÍS hækkaði um 50 milli ára eða 19%, úr 261 milljón í 311 milljónir króna milli ára. Fjórir framkvæmdastjórar og forstöðumaður fjárfestinga létu af störfum. auk þess sem forstjóraskipti urðu þar sem Helgi Bjarnason tók við starfi Jakobs Sigurðssonar. Meðal framkvæmdastjóra sem tóku við var fyrrnefndur Valgeir sem ráðinn var framkvæmdastjóri fjárfestinga og reksturs hjá VÍS.

Leiðrétt: Misfarið var með launabreytingar Sigurðar Viðarssonar, forstjóra TM, í prentuðu útgáfu Viðskiptablaðsins, en laun hans hækkuðu um 2% milli ára. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.