„Ég held að það sé alveg ágætt að vera ungur á Íslandi miðað við tækifærin sem fólk hefur,“ segir Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands. „En það er samt engum blöðum um það að fletta að kjarabætur síðustu tveggja til þriggja áratuga hafa runnið í minna mæli til ungs fólks en annarra aldurshópa. Sérstaklega í uppganginum fyrir hrun, þá lenti ungt fólk sérstaklega eftir á og sú þróun hefur ekki gengið til baka,“ segir Konráð.

Því hafi kaupmáttur yngri aldurshópa aukist mun minna en annarra. „Því eldri sem aldurshópurinn er því mun meira hefur kaupmátturinn aukist hlutfallslega. Að einhverju leyti er það gott enda viljum við öll hlúa vel að öldruðum.“ Ástæður fyrir þessari þróun liggi ekki fyllilega fyrir. Ekki dugi að skoða vinnutíma enda vinni allir aldurshópar skemur en áður. Hins vegar hafi yngra fólki sem vinni hlutastörf fjölgað og það eru alla jafna ekki stjórnunarstöður.

„Þegar maður skoðar þessa kjaraþróun og aðra þróun hefur maður það á tilfinningunni að þú þurfir að verða eldri og eldri til að komast í svoleiðis stöðu og þar með lyfta upp tekjunum. Í dag er mjög sjaldgæft að einhver undir fertugu sé ráðinn í stóra stjórnunarstöðu. Fyrir tíu til tuttugu árum virðist sem það hafi verið mun algengara. Atvinnulífið sækir meira í reynslu en menntun heldur en áður. Við sjáum það líka í að fjárhagslegur ávinningur af menntun hefur minnkað um helming frá 2004 og til dagsins í dag,“ segir Konráð. Fólk er almennt lengur í skóla, eignast síðar börn og hefur síður ráð á að flytja að heiman.

„Ef maður setur þetta í samhengi við húsnæðismarkaðinn þá fyrst finnst mér þetta vera eitthvert vandamál,“ segir Konráð. Hann kallar eftir því að fyrirtæki gefi fleiru ungu fólki tækifæri. „Það væru örugglega tækifæri í því fyrir mörg fyrirtæki að horfa til þess að gefa ungu fólki möguleika. Þegar fleiri ungir eru í stjórnunarstöðum þarf það ekki endilega að vera verra, þvert á móti. Það er mikilvægt að hafa fjölbreytni á margar víddir, ekki bara kynjavíddina heldur líka aldursvíddina,“ segir Konráð.

Viðtal við Konráð birtist í tímariti Frjálsrar verslunar um fólk á uppleið í atvinnulífinu. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi að Frjálsri verslun hér.