*

þriðjudagur, 24. október 2017
Innlent 2. júní 2017 09:10

Stjórnendur búast við 1,8% verðbólgu

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækja landsins telja góðar aðstæður í atvinnulífinu og að þær haldist þannig á næstunni.

Pétur Gunnarsson
Nokkur munur á mati stjórnenda fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og annarra stjórnenda.
Haraldur Guðjónsson

Stjórnendur flestra 400 stærstu fyrirtækja landsins telja aðstæður í atvinnulífinu góðar og að þær verði það á næstunni. Þó er nokkur munur á mati stjórnenda fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og annarra stjórnenda. Hægt er að kynna sér niðurstöður könnunarinnar sem framkvæmd er af Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur jafnframt fram að stjórnendur geri ráð fyrir 1,8% verðbólgu á næstu 12 mánuðum.

Fjórir af hverjum tíu stjórnendum fyrirtækjanna finna fyrir skorti á starfsfólki sem er sama niðurstaða og fyrir ári. Gert ráð ráð fyrir tæplega 1,5% fjölgun starfsmanna á vinnumarkaði á næstu sex mánuðum eða því sem nemur ríflega tvö þúsund störfum. 

Verðbólguvæntingar stjórnenda eru talsvert undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Stjórnendur búast við að jafnaði 1,8% verðbólgu næstu 12 mánuði sem er 0,7 prósentustiga lækkun frá síðustu könnun fyrir tveimur mánuðum. Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3% eftir tvö ár, sem er sama niðurstaða og í síðustu könnun.

Góðar núna og svipaðar á næstunni

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er enn mjög há. Ríflega 80% stjórnenda telja aðstæður góðar í atvinnulífinu, en einungis 5% að þær séu slæmar. Talsverður munur er á mati stjórnenda fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og annarra þar sem 73% þeirra fyrrnefndu telja aðstæður góðar en 89% hinnar síðarnefndu.

Flestir stjórnendanna telja að aðstæður verði svipaðar í atvinnulífinu eftir sex mánuði. 65% telja að aðstæðurnar verði óbreyttar, 19% telja að þær batni, en 16% að þær versni. Í hópi stjórnenda fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni telja 62% að þær verði óbreyttar, 15% að þær batni og 23% að þær versni.

Langmestur skortur í fjármálastarfsemi

Skortur á starfsfólki er svipaður og í síðustu könnunum, raunar nákvæmlega sá sami og fyrir ári síðan, en 42% stjórnenda telja fyrirtæki þeirra búa við skort á starfsfólki. Skorturinn er langmestur í fjármálastarfsemi, næst mestur í sjávarútvegi og þar á eftir í iðnaði. Minnstur skortur á starfsfólki er í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu.

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.