Karl Moore, dósent við McGill-háskóla í Kanada, kom til Íslands á haustmánuðum til að kenna breytingastjórnin og leiðtogafræði við Háskólann í Reykjavík. Hann vinnur að bók um mikilvægi innhverfra (e. introverts) í stjórnun en stjórnendur virðast að jafnaði vera úthverfari (e. extroverted) en gengur og gerist. Hann segir þjóðir mjög mis út- eða innhverfar sem sjáist best þegar hann fer til Finnlands, en móðir hans er finnsk.

„Um það bil helmingur fólks er úthverft og hinn helmingurinn innhverfur. Það er þó dálítil einföldun því þetta er í rauninni ákveðið róf þar sem fólk raðast. Ég hef rannsakað Norður-Evrópu og Vestur-Evrópu í þessu samhengi. Þar virðist sem þeir úthverfu séu að jafnaði leiðtogar - háværa og ríkjandi manneskjan sem dregur til sín alla athyglina í herberginu.“ Þegar þetta er skoðað þurfi hins vegar að setja hlutina í samhengi. Bandaríkjamenn séu til dæmis að meðaltali úthverfari en Norðurlandabúar.

„Ég hef rætt við yfir 300 yfirmenn í fyrirtækjum með yfir 5.000 starfsmenn - fyrirtæki þar sem þú þarft að vera virkilega góður leiðtogi til að komast á toppinn. Þvert á það sem hefur hingað til verið viðtekið þá er um það bil helmingur stjórnenda innhverfur og helmingur úthverfur. Þetta kom á óvart. Það sem hins vegar kom í ljós er að innhverfir stjórnendur læra að hegða sér eins og þeir séu einhversstaðar mitt á milli (e. ambiverts).“ Hugtakið er tiltölulega nýtt af nálinni og notað til að lýsa einhverjum sem er mitt á milli innhverfra og úthverfra einstaklinga.

„Hátt settir stjórnendur í dag þurfa allir að vera miðhverfir og geta hegðað sér hvort tveggja á innhverfan og úthverfan hátt. Ég er sjálfur úthverfur en til að geta náð árangri sem stjórnandi þarf ég stundum að hegða mér á innhverfan hátt. Innhverfir eru gjarnan góðir í að hlusta, eitthvað sem úthverfir eru ekki góðir í því þeir eru háværir og fyrirferðamiklir. Þeir vilja hafa sviðsljósið út af fyrir sig og enga aðra. Það er óþroskað og sem leiðtogi þá þarf ég að læra að hlusta. Fyrir þessu eru fyrst og fremst tvær ástæður.

Í fyrsta lagi er það bara góð stjórnun. Góður stjórnandi situr og hlustar á sína undirmenn. Í öðru lagi er í heimi eins og okkar, þar sem (emergent strategy) er algengari en (deliberate strategy) er mikilvægt að geta aðlagast. Ég bauð Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda Wow air, í tíma sem ég var að kenna. Hann tók dæmi af því að þegar Iceland air tilkynnti um flug félagsins til Berlínar. Innan hálftíma lækkaði Wow verðið á flugi til borgarinnar. Þetta er eitthvað sem er hægt að gera í frekar stóru fyrirtæki þar sem hann á það einn. Svona beygja er eitthvað sem frumkvöðlar geta gert en Skúli hefur hegðað sér mikið eins og frumkvöðull. Þetta sýnir hvað við þurfum að geta breyst á punktinum,“ segir Karl.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu . Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .