Stjórnendur ISS Ísland hafa ásamt hópi innlendra og erlendra fjárfesta undirritað kaupsamning við ISS World Services A/S um kaup á öllu hlutafé ISS ÍSland ehf.

Meðal fjárfestanna eru þeir Einar Sveinsson, Benedikt Sveinsson, Patrick de Muynck og Peter Nilsson.

„Samningurinn er háður hefðbundnumfyrirvörum, en bæði kaupendur og seljandi eru bjartsýnir á að eigendaskiptin gangi að fullu í gegn fyrir árslok. Kaupverðið er trúnaðarmál,“ segir í fréttatilkynningu fyrirtækisins.

„Fjárfestahópurinn samanstendur af erlendum aðilum með mikla reynslu af rekstri og stjórnun þjónustufyrirtækja á heimsvísu, innlendum fjárfestum og núverandi stjórnendum ISS Ísland.

Meðal fjárfestanna er Patrick de Muynck, fyrrum stjórnandi hjá franska veitingafélaginu Elior Group og sænska sjóðastýringarfélagsins EQT sem m.a. átti ISS og SSP Group um árabil. Elior, SSP og ISS eru meðal stærstu fyrirtækja heims á sviði fasteigna- og veitingaþjónustu.

Á meðal fjárfestanna eru að auki Peter Nilsson, fyrrum forstjóri Duni og Sanitec, Einar Sveinsson og Benedikt Sveinsson.

ISS World Services A/S er leiðandi í fasteignaumsjón í heiminum og er með starfsemi í 53 löndum. ISS hóf starfsemi á Íslandi árið 2000, þegar  fyrirtækið  keypti ræstingadeild Securitas.

Á síðastliðnum 16 árum hefur fyrirtækið vaxið og aukið  þjónustuframboð sitt verulega. Þjónusta fyrirtækisins felst í ræstingum, veitingaþjónustu, annarri fasteignaumsýslu  og samhæfðum þjónustulausnum.

Fyrirtækið mun starfa áfram undir merkjum ISS næstu tvö árin á  grundvelli samstarfssamning við ISS World Services A/S.

Patrick de Muynck, verðandi stjórnarformaður ISS Ísland:

„Félagið byggir á sterkum grunni eftir að hafa verið hluti af  samstæðu leiðandi aðila á heimsvísu á sviði fasteignaumsjónar.

Við munum byggja á þessum grunni og nýta okkar þekkingu og reynslu til fulls til að efla fyrirtækið ennfrekar og styðja stjórnendur og starfsfólk í að veita viðskiptavinum okkar áfram framúrskarandi þjónustu.

Við teljum ISS Ísland mjög áhugaverðan fjárfestingarkost  og aðstæður á Íslandi eru um margt spennandi fyrir erlenda aðila með fjárfestingar í huga.“

Troels Bjerg, framkvæmdastjóri Norður-Evrópu hjá ISS World Services:

„ISS hefur starfað á Íslandi síðan árið 2000 og við erum stolt af  uppbyggingu og þróun félagsins undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar.

Það er okkur mikilvægt að starfsfólk okkar og viðskiptavinir fái trausta eigendur sem styðja við rekstur félagsins til framtíðar. Við viljum þakka samstarfsfólki okkar á Íslandi fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf í gegnum árin.“

Guðmundur Guðmundsson, Forstjóri ISS Ísland:

„ISS Ísland hefur átt farsælt samstarf við ISS World services frá upphafi. Fjárfesting nýrra eigenda er viðurkenning á þeim árangri og uppbyggingu sem unnið hefur verið að undanfarin ár.

Við horfum bjartsýn til framtíðar og félagið fær nýja eigendur með verðmæta innlenda og alþjóðlega þekkingu sem mun nýtast félaginu  og viðskiptavinum okkar vel.

Fyrirtækið verður rekið áfram í óbreyttri mynd með sama starfsfólki, en það hefur verið lykillinn á bak við þennan frábæra árangur.

Við stefnum ótrauð að því markmiði  að verða  fremsta þjónustufyrirtæki á Íslandi.“

Kvika banki leiddi söluferlið af hálfu seljanda og BBA Legal var lögfræðilegur ráðgjafi. Fossar markaðir í Stokkhólmi, Atlantik Legal Services og Capacent voru ráðgjafar kaupenda.“