Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir hugmyndir um auðlinda- og stöðugleikasjóð grundvallast á ríkisforsjárhyggju og efast um að slíkur sjóður muni skila efnahagslegum ábata.

Í stjórnmálasáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er gert ráð fyrir því að stofnaður verði stöðugleikasjóður í kringum arð af orkuauðlindum í eigu ríkisins.

Sjóðurinn er hugsaður sem sveiflujöfnunartæki og varasjóður - eins konar öryggispúði fyrir efnahagslífið líkt og norski olíusjóðurinn. Greitt yrði úr sjóðnum til að mæta niðursveiflu en lagt yrði í hann þegar vel árar.

„Hugmyndir um svona stöðugleikasjóð byggja á þeirri forsendu að opinberir aðilar viti betur en einkaðilar hvernig fara eigi með fé,“ segir Ragnar í samtali við Viðskiptablaðið. „Sú forsenda er langsótt svo ekki sé meira sagt. Hún brýtur í bága við fræðilega þekkingu. Hvar er aðhaldið að stjórnmálamönnunum og embættismönnunum sem eiga að ráðstafa þessu fé? Eru þeir einhverjir alvitandi og algóðir guðir sem greinilega skilja og hugsa aðeins um þjóðarhag? Ef sú forsenda stæðist að hið opinbera vissi betur en einkaaðilar hvernig ráðstafa beri fé væri auðvitað rökrétt að hið opinbera færi með allt ráðstöfunarfé landsmanna.“

Ragnar veltir einnig fyrir sér hversu æskilegt það sé að fela opinberum aðilum það hlutverk að jafna út hagsveifluna. Niðursveiflur þjóni ákveðnu hlutverki í markaðshagkerfum við að „taka til“ í hagkerfinu og því gæti fórnarkostnaður stöðugleikasjóðs verið talsverður. Ráðstöfun fjármagns úr slíkum sjóði gæti þannig haldið óhagkvæmum fyrirtækjum á lífi og sóað fjármagni sem gæti nýst betur í framleiðniaukandi fjárfestingarverkefni á vegum einkaaðila.

„Óstöðugleiki bitnar á heimilum og fyrirtækjum,“ segir Ragnar. „Væri ekki skynsamlegra að leyfa þessum aðilum að halda svigrúminu til að bregðast við honum á þann hátt sem þeim hentar best og á sína ábyrgð, í stað þess að hið opinbera rífi af þeim féð og þar með getuna til að vernda sig?“

Ragnar bendir á að ríkið sé nú þegar fyrirferðamikið í hagkerfinu. „Hið opinbera ráðstafar nú þegar yfir 40% af því sem framleitt er í landinu. Er sú ráðstöfun svona gríðarlega snjöll? Er hinn opinberi rekstur í t.d. heilbrigðis- og menntakerfi  til fyrirmyndar?“

Einnig segir Ragnar að reynsla íslenska ríkisins af rekstri stöðugleikasjóða lofi ekki góðu. „Við höfum áður rekið stöðugleikasjóði, t.d. verðtryggingarsjóði og aflatryggingarsjóði. Þeir voru lagðir af vegna afskaplega vondrar reynslu. Væri nú ekki heillaráð að rifja upp þá reynslu áður en lengra er haldið?“

Samkvæmt upplýsingum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er undirbúningsvinna í gangi við stofnun stöðugleikasjóðs.