*

miðvikudagur, 24. apríl 2019
Innlent 26. febrúar 2016 13:24

Stjórnmálamenn og frjáls samkeppni

Samtök atvinnulífsins vilja að stjórnmálamenn uppfæri úreltan hugsunarhátt og innleiði samkeppni í opinbera þjónustu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samtök atvinnulífsins segja að það skorti að stjórnmálamenn sýni það í gerðum sínum að þeir trúi á frjálsa samkeppni. Samtökin segja að virk samkeppni sé uppspretta nýsköpunar og framfara auk þess sem hún tryggi að neytendur njóti bestu mögulegu kjara hverju sinni.

„Þó íslenskir stjórnmálamenn styðji frjálsa samkeppni í orði kveður við annan tón þegar kemur að eigin ranni. Í huga þeirra virðast kostir frjálsrar samkeppni ekki ná til þjónustu sem hið opinbera hefur tekið að sér að veita þegnunum. Virk samkeppni sé nauðsynleg í verslun, en ekki með áfengi og tóbak. Samkeppni sé mikilvæg í þjónustugreinum, en ekki heilbrigðisþjónustu og menntastarfsemi. Samkeppni í vöruframleiðslu sé nauðsynleg, en ekki framleiðslu landbúnaðarvara. Svo mætti áfram telja.“

Samtökin spyrja hvort að stjórnmálamenn telji að önnur lögmál gildi um einkarekstur en opinberan rekstur - frjáls samkeppni sé nauðsynleg til að hvetja einkageirann til dáða en einokun tryggi bestu niðurstöðu í opinberri þjónustu.

Þau segja að svo hljóti að vera því að heilbrigðisþjónusta, menntastarfsemi auk hluta landbúnaðarkerfisins séu sérstaklega undanskilin samkeppnislögum án þess að rök séu færð fyrir því að einokun gagnist neytendum betur en samkeppni. Samtökin segja að svarið við þessu blasi við: 

„Samkeppnislögin voru ekki sett að frumkvæði íslenskra stjórnmálamanna heldur voru þau jákvæð afleiðing samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Fyrir gildistöku hans gilti frumstæð verðlagslöggjöf sem einkenndist af miðstýrðum afskiptum framkvæmdavaldsins af verðákvörðunum einstakra fyrirtækja í stað viðskiptafrelsis sem allar þjóðir sem við berum okkur saman við höfðu búið við um langt árabil.“

Samtökin segja einnig a heilbrigðiskerfið sé gott dæmi um markað þar sem samkeppni gæti skilað miklum ávinningi.

„Kostnaður við heilbrigðiskerfið hefur aukist mikið og mun sú þróun halda áfram vegna öldrunar þjóðarinnar. Á sama tíma hefur heilbrigðiskerfið átt í erfiðleikum með að fá íslenska heilbrigðisstarfsmenn til starfa hér á landi eftir nám og starf erlendis. Ein ástæða þess er fábrotið starfsumhverfi hér á landi þar sem ríkið er allsráðandi í rekstri heilbrigðisþjónustu. Möguleikum einstaklinga til að hagnýta þekkingu sína og færni á þessu sviði eru því miklar skorður settar. Aukinn einkarekstur getur bæði skapað fjölbreyttara og hagkvæmara rekstrarumhverfi, auk þess að laða færa sérfræðinga til starfa.“

Að lokum segja samktökin að miðað við reynslu síðustu tveggja áratuga af samkeppnislögum sé kominn tími til að stjórnmálamenn „uppfæri úreltan hugsunarhátt sinn og innleiði fyrirkomulag samkeppni í veitingu opinberrar þjónustu.“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim