Vigdís Hauksdóttir lagði fram fyrirspurn á Alþingi nýverið þar sem hún spurði Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um mælingar á fjölmiðlanotkun og skoðanakönnunum.

Þá veltir Vigdís fyrir sér hvort skoðanakannanir Capacent séu gerðar á sama hátt og fyrirtækið framkvæmir mælingar á ljósvakamiðlanotkun sérstaks úrtakshóps.

Ljósvakanotkunarmælingarnar eru framkvæmdar þannig að slembiúrtakshópur fólks er valinn til að bera á sér sérstakt mælitæki sem nemur faldar hljóðbylgjur sem komið er fyrir í útsendingum hvers miðils fyrir sig.

Hver miðill hefur einstaka hljóðbylgju sem tækið skráir hjá sér, og í lok hvers dags sendir mælitækið upplýsingarnar til miðtölvu úr sértilgerðri tengikví.

Ekki svo að unnt sé að mæla skoðanir með rafrænum hætti

Þá velti Vigdís vöngum yfir því hvort mælingar á skoðunum landsmanna, á borð við fylgi stjórnmálaflokka og önnur álitaefni á borð við andstöðu við Evrópusambandið, væru á einhvern sambærilegan hátt mæld 'rafrænt', eða eins og Vigdís segir í fyrirspurn sinni:

„Er sama háttalag, þ.e. rafrænn útbúnaður, notað við skoðanakannanir sem varða fylgi stjórnmálaflokka og önnur álitaefni, svo sem andstöðu við Evrópusambandið?“

Þá segir í svari Ragnheiðar að búnaðurinn rafræni sé aðeins notaður við mælingar á ljósvakamiðlanotkun - ekki sé unnt að mæla hugsanir fólks á rafrænan hátt enn sem komið er:

„Búnaðurinn er notaður til að mæla áhorf og hlustun á ljósvakamiðla. Mælibúnaðurinn mælir ekki viðhorf eða stjórnmálaskoðanir fólks. Slíkar mælingar hjá Gallup fara fram með hefðbundnum spurningakönnunum í gegnum síma eða net.“