Fjöldi lögreglumanna tilkynnti í gær veikindi, en siglt hefur í strand í kjaraviðræðum á milli Landssambands lögreglumanna og ríkis. Leiða má líkur að því að veikindin hafi verið upplogin hjá fjölda lögreglumanna en að þau hafi verið tilkynnt í mótmælaskyni.

Mótmæli lögreglumanna höfðu áhrif í flestum umdæmum en þó mest áhrif á höfðuborgarsvæðinu þar sem loka þurfti lögreglustörfum. Innanríkisráðherra hefur gagnrýnt aðgerðirnar og fjármálaráðherra hefur sagt þessi samstöðuveikindi vera ólögleg, enda séu þau ígildi verkfalls. Lögreglumenn hafa einnig stöðvað umferð og lagt niður störf að hluta í mótmælaskyni.

Lögreglumenn komnir með nóg

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir í samtali við Bylgjuna að ástæður þessara aðgerða sýni að lögreglumenn muni ekki lengur una við sína stöðu. Lögreglumenn hafi verið verkfallslaus stétt í tæp 30 ár, eða frá 1986, og á þeim tíma hafi verið stöðugur ágreiningur við ríkið um kaup og kjör.

„Við höfum horft upp á hvert svikið loforðið á fætur öðru, í kjaramálum, í búnaðarmálum, í mannfjöldamálum og svo framvegis og svo framvegis. Mælirinn er bara einfaldlega orðinn fullur hjá lögreglumönnum, það er bara einfaldlega þannig.“

„Lögreglan á í erfiðleikum með að ná almennilega utan um glæpaflóruna sem er í landinu, ef maður getur notað það orð, sem er í landinu. Þannig að menn eru bara að gefast upp á álaginu og skeytingarleysi stjórnvalda og virðingarleysi í þeirra garð.“