Nauðsynlegt er að skerða réttindi sjúkratryggðra eða auka fjárveitingar til að rétta af rekstur Sjúkratrygginga Íslands. Í samtali við RÚV segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri stofnunarinnar, að það hafi verið fyrirséð í byrjun árs að stofnunin myndi fara fram úr fjárheimildum.

Sjúkratryggingar Íslands er ein af þeim ríkisstofnunum sem fóru talsvert fram úr fjárveitingum á fyrri helmingi ársins, samkvæmt skýrslu um fjárreiður ríkissjóðs. Sjúkratryggingar fóru 1.800 milljónum fram úr heimildum sínum.

Steingrímur segir að upphæðin eigi eftir að hækka, svo framarlega sem stjórnvöld grípi ekki til aðgerða. Hann segir að framúrkeyrslan stefni í að verða nálægt þremur milljörðum. Þá segir Steingrímur að ef stjórnvöld séu ekki tilbúin að skerða réttindi, þá þurfi að auka fjárveitingar til málaflokksins.