Fjártækniklasinn snýst um að viðhalda félagsstarfi og nánd í hópi þeirra fyrirtækja, háskóla og annarra aðila sem eru starfandi í fjártækni á einn máta eða annan,“ segir Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Fjártækniklasans sem opnaður var þann 31. október síðastliðinn en klasinn er til húsa á Laugavegi 77. Fjártækniklasinn er í raun samfélag um framfarir í fjártækni og eru stofnaðilar hans 64 fyrirtæki, háskólar og aðrir aðilar. Þeirra á meðal eru Landsbankinn, Meniga, Creditinfo, Five Degrees og Origo. Að sögn Gunnlaugs má skilgreina fjártækni sem hverja þá tækni, sem varðar fjármál á einhvern hátt. Þetta sé því breitt svið með miklar tengingar.

Svaf ekki á hugmyndinni

Gunnlaugur segir að hlutirnir hafi gerst nokkuð hratt frá því að hugmyndin um fjártækniklasann kviknaði. „Ég er með bakgrunn úr fjármálum, tækni og nýsköpun. Í upphafi árs fór ég að hugleiða hvað ég myndi geta gert í tengslum við fjártækni þar sem mikil fjártæknibylgja er að eiga sér stað í heiminum. Sama hvað ég hugsaði um fjártækni þá komst ég alltaf að því að það vantaði samstarf og tengsl af ýmsu tagi til að láta hlutina gerast vegna þess hvernig þessi fjártækniheimur er gerður.  Ég sat með vini mínum á veitingastaðnum Kröst þegar þessi hugmynd spratt upp. Hugmyndin var í raun að mynda svipaðan klasa og Sjávarklasann sem meðal annars hefur tengt saman hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki í sjávarútvegi og gera þá svipaða hluti til að auka grósku í fjártækni.

Ég stóð semsagt upp frá miðri máltíð þar sem mér lá svo á að byrja að framkvæma hugmyndina. Það er auðvitað mjög sjaldgæft að maður ákveði að framkvæma hugmynd samstundis því venjulega sefur maður allavega á henni. Það fyrsta sem ég gerði var að hringja í Þór Sigfússon sem hefur stýrt sjávarklasanum og fá hann með mér og hann varð stjórnarformaður mjög fljótt. Ég fór síðan að ganga á röðina og kynna þetta fyrir öllum þeim aðilum sem nú eru orðnir að klasanum. Starfið er komið af stað og við erum komnir í húsnæði en þetta hefur allt gerst frekar hratt.

Starfið felst annars vegar í því að reka nýsköpunarmiðstöð þar sem tvö fyrirtæki eru nú þegar flutt inn auk þess sem við erum með mikið rými fyrir allmörg til viðbótar á Laugavegi 77. Hins vegar felst starfið í félagsstarfi eins og viðburðum sem við vorum með í tilefni opnunarinnar og hjálpa fólki að kynnast hlutunum. Þar fyrir utan reynum við að gera ýmsa hluti til þess að stuðla að nýsköpun, samkeppni og framþróun á allan hátt, meiri skilvirkni, betri upplifun og kjörum fyrir neytendur,“ segir Gunnlaugur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .