Fjárfestingafélagið Stoðir á nú rúmlega átta prósent hlut í Símanum. Félagið átti fyrir 4,64 prósent en eftir viðskipti bætist 3,47 prósentustiga hlutur við. Á félagið því samtals 8,11 prósent í Símanum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Miðað við gengi bréfa í Símanum nema viðskiptin tæplega 1,3 milljarði króna. Það sem af er degi hefur Síminn hækkað um tvö prósent í 2,5 milljarða viðskiptum á aðalmarkaði.

Samkvæmt lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Símans, sem finna má á heimasíðu fyrirtækisins og var uppfærður um mánaðarmót, verða Stoðir eftir viðskiptin fjórði stærsti hluthafi þess. Þrír stærstu hluthafarnir eiga það allir sammerkt að vera lífeyrissjóðir. Fyrrgreindan 4,64 prósent hlut Stoða er ekki að finna á listanum.