Afkoma Stoða, sem var áður FL Group, var neikvæð um 4,8 milljarða króna árið 2016. Árið áður hagnaðist félagið um 6,2 milljarða íslenskra króna. Hægt er að nálgast ársreikning félagsins hér , en hann var samþykktur af hluthöfum á aðalfundi Stoða sem fór fram 21. apríl síðastliðinn.

Heildareignir félagsins í árslok 2016 nam 13,3 milljörðum króna samanborið við 28,7 milljarða í lok ársins 2015. Eigið fé Stoða var í árslok 2016 12,9 milljarðar, samanborið við 22,6 milljarða árið áður.

Fyrr í dag var greint frá því að fjárfestahópur sem samanstendur meðal annars af Jóni Sigurðssyni, sem var áður forstjóri FL Group og stór hluthafi í Glitni, hafi keypt meirihluta í Stoðum. Stærsta eign félagsins er 8,87 prósenta hlutur í evrópska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco Gerber sem er skráður á markað í Hollandi.

Jón Sigurðsson var kjörinn í stjórn Stoða á aðalfundinum ásamt Iðu Brá Benediktsdóttur og Örvari Kærnested.