Sátt um stöðugleika og hóflegar nafnlaunahækkanir virðist að engu orðin eftir að samningar á milli lækna og ríkis voru undirritaðir. Útlit er fyrir harðari kjarabaráttu en undanfarin ár, láti menn kné fylgja kviði.

Eins og við er að búast hafa raunlaun og framleiðniaukning til langs tíma haldist í hendur og verið 2% og 2,1% frá árinu 1995. Sé litið til undanfarinna fimm ára hefur þetta einnig verið raunin þar sem framleiðni hefur aukist um 0,6% en raunlaun um 0,4%. Framleiðniaukningin skýrist þó nær eingöngu vegna 5,7% aukningar árið 2009 sem hefur gengið til baka að mestu frá árinu 2010.

Sé eingöngu litið til þróunar frá árinu 2010 hefur framleiðni þannig dregist saman um 0,4% á ári og hækkun raunlauna verið töluvert umfram þá þróun, eða um 2% á ári. Það má því leiða líkur af því að mjög hafi dregið úr innistæðu fyrir ríflegum launahækkunum sé litið til allra seinustu ára, sérstaklega ef verðbólga verður áfram lág.

Miðað við spá Seðlabankans í Peningamálum er ráðgert að framleiðni aukist um 1% á árinu. Verðbólgumarkmiðið er 2,5%. Að því gefnu að þetta gangi eftir og að tekið sé tillit til launa- og framleiðniþróunar undanfarinna fimm ára telur Seðlabankinn stöðugleikann þola þrjú og hálf til fjögur prósent nafnlaunahækkanir á heildina í komandi kjarasamningum og eftirfarandi launaskriði.

Verði samanlögð nafnlaunahækkun kjarasamninga og launaskriðs á heildina litið hins vegar umfram samanlagða framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið ársins mun því hrikta verulega í stoðum stöðugleikans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .